Til baka

Snjallvæðing í rafdælingu og ódýrari hleðslustöðvar

headerBlog.Name

Öll stærri fyrirtæki landsins ættu að sýna samfélagslega ábyrgð og styðja við orkuskipti í samgöngum. Það geta þau gert með því að setja upp hleðslustöðvar fyrir starfsmenn og viðskiptavini. Þetta kemur fram í erindi Axels Rúnars Eyþórssonar, stofnanda e1, á vísindadegi Orkuveitu Reykjavíkur, sem haldinn var á dögunum. Erindið bar yfirskriftina „Snjallvæðing í rafdælingu“ og fjallar um hvernig hröð uppbygging innviða fyrir rafbíla getur farið fram á hagkvæmari máta.

Það sem staðið hefur útbreiðslu hleðslustöðva fyrir þrifum er sú staðreynd að þær eru mjög dýrar í innkaupum. Orka náttúrunnar, félag í eigu OR, er eini aðilinn sem ráðist hefur í að setja upp hraðhleðslustöðvar á Íslandi. Fyrstu stöðvarnar fengust gefins frá Nissan í Evrópu og B&L en eins og fram kemur í erindi Axels Rúnars kostar ein hraðhleðslustöð á bilinu fjórar til sex milljónir króna. Uppsett stöð getur kostað allt að tíu milljónum en þá er viðhalds- og rekstrarkostnaður ótalinn.

Axel bendir á að fyrirtæki á markaði hafi ekki séð sér hag í að ráðast í uppsetningu slíkra stöðva, enda myndi sú fjárfesting skila sér hægt, ef nokkurn tímann.

Meðal hraðhleðslustöðvar 32A

En þetta kann að vera að breytast. Fyrir tilstilli nýrra 32 ampera hleðslustöðva, sem kosta margfalt minna en hraðhleðslustöðvar, má hraða uppbyggingu hleðslustöðva til muna. Stöðvarnar hlaða ekki eins hratt og hinar sem fyrir eru en þær fullhlaða þó flesta rafbíla á þremur til fjórum tímum. Þessar stöðvar kosta uppsettar minna en einn tíunda af því sem hefðbundnar hraðhleðslustöðvar kosta.

Axel bendir á að hraðhleðslustöðvarnar hlaði rafhlöðurnar aðeins upp í 80% hlutfall. 32 ampera stöðvarnar nota innbyggð hleðslutæki bílana og fer það mikið betur með rafhlöðuna, ásamt því að geta fullhlaðið bílinn. „Ef ég væri að leggja við IKEA eða Smáralind og rafhlaðan sýndi 60 prósenta hleðslu væri ég ekki í vafa um hvora stöðina ég myndi velja.“

Nettengjanlegar stöðvar

e1 skorar sem fyrr segir á stærri fyrirtæki landsins að koma upp hleðslustöðvum við starfsstöðvar sínar. Ef það gengi eftir gætu rafbílaeigendur hlaðið bíla sína á nokkrum stöðum yfir daginn – án þess að vera í brýnni þörf fyrir að fullhlaða bíla sína. „Ef ég væri að fara á fund eða í verslunarmiðstöð og ætlaði að stoppa í klukkutíma, þá tækist mér að hlaða 1/3 rafhlöðunnar. Þegar net hleðslustöðva verður orðið þétt þá gæti ég hlaðið bílinn minn á nokkrum stöðum yfir daginn.“ Þannig væri bíllinn alltaf hlaðinn á bilinu 50-100% yfir daginn hefði hann aldrei þörf fyrir að stinga bílnum í samband við hraðhleðslustöð og væru þær einungis neyðarúrræði. „Við þurfum að hætta að hugsa eins og við séum að setja bensín á bíl: „Fyll‘ann Takk fyrir.““

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að stöðvar sem settar eru upp séu nettengjanlegar. Með því móti sé hægt að stýra aðgangi að þeim á einfaldan hátt auk þess sem gjaldtaka verður einföld.

App verður markaðstorg hleðslustöðva

e1 vinnur að þróun og hönnun samnefnds snjallsímaforrits þar sem markmiðið er að skapa deilihagkerfi í ætt við AirBnB, og auðvelda rafbílaeigendum að sækja upplýsingar um hleðslustöðvar; svo sem hvenær þær eru lausar, hvers konar stöðvar um ræðir og borið saman verð hleðslunnar – svo eitthvað sé nefnt. Þannig geta rafbílaeigendur á auðveldan hátt fundið lausa hleðslustöð sem hentar hverju sinni. Rafbílaeigendur greiða svo fyrir þjónustuna í gegn um forritið.

Axel segir að forsendan fyrir hröðum vexti innviða fyrir rafbíla sé uppbygging 32 ampera meðal-hraðhleðslustöðva. „Þetta er ekki flókið. Hver stöð er lítil fjárfesting og með samstilltu átaki getum við byggt upp þétt net nauðsynlegra innviða fyrir rafbíla á mjög skömmum tíma.“

Til baka