Til baka

Skortur á hleðslustöðvum

headerBlog.Name

ON, Orka náttúrunnar, vinnur nú að því að endurnýja hraðhleðslustöðvar fyrirtækisins, en nokkuð hefur borið á bilunum að undanförnu. Stöðin á Selfossi hefur ekki virkað sem skildi en hún var endurnýjuð þann 23. febrúar síðastliðinn og er því komin í lag. „Stefnt er að endurnýjun á Miklubraut og IKEA í næstu viku og í beinu framhaldi verður stöðin á Fríkirkjuvegi endurnýjuð,“ segir á heimasíðu ON, sem er dótturfélag Orkuveitur Reykjavíkur.

Tvær stöðvar rísa á Akureyri
Alls eru tíu hraðhleðslustöðvar á landinu eins og sakir standa. Þær eru allar á Suðvesturlandi, frá Borgarnesi í norðri, Reykjanesbæ í vestri og Selfossi í austri. Til stendur að settar verði upp tvær stöðvar á Akureyri á þessu ári auk þess sem stöð verður komið fyrir við Hellisheiðarvirkjun. Ljóst má vera að uppsetning stöðvanna fyrir norðan gæti orðið til þess að ýta undir fjölgun rafbíla í Eyjafjirði en senn geta rafbílaeigendur á svæðinu hlaðið bifreiðar sínar með skjótvirkari hætti en áður.

Á vefsíðu ON segir að verið sé að setja upp nýjar stöðvar með fleiri stöðlum til að gera fleiri rafbílaeigendum kleift að nýta sér hraðhleðslustöðvarnar. „Uppbygging innviða fyrir rafbíla er í þróun og nýsköpunarfasa. Unnið er að bættum samskiptum við notendur og markvissari bilanagreiningu.“

Rafbílaeigendur hljóta að fagna þessum áformum en notendur hafa látið óánægju sína með bilaðar hleðslustöðvar í ljós á samskiptamiðlum undanfarnar vikur.

Vöntun á stöðvun
Þrátt fyrir þessa endurnýjun ON er ljóst að fjölgun hraðhleðslustöðva hefur ekki haldist í hendur við fjölgun rafbíla á Íslandi, en í fyrra tvöfaldaðist flotinn. Aðeins eru tíu hraðhleðslustöðvar fyrir um 650 hreinræktaða rafbíla en í stefnuyfirlýsingu sitjandi ríkisstjórnar er talað um að beita hvetjandi aðgerðum í efnahagslífinu til að ýta undir græna starfsemi. „Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. Hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.“

Aðgerðaráætlun um orkuskipti
Í nóvember kynntu stjórnvöld sóknaráætlun í loftlagsmálum í sextán liðum. Átta þeirra miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í sóknaráætluninni kemur fram að á vorþingi þessa árs verði lögð fram heildstæð áætlun um orkuskipti í samgöngum og lagður grunnur að því að bæta innviði fyrir rafbíla á landsvísu.

„Til lengri tíma er reiknað með því að uppbygging innviða, s.s. hraðdælna á rafmagni verði sjálfbær, þar sem margir hafa hag af því að setja upp rafdælur. Það er þó talið rétt að ríkisvaldið styrki tímabundið átak til að byggja upp innviði fyrir rafbíla þannig að hægt sé að tryggja aðgengi sem flestra landsmanna að loftslagsvænum samgöngumáta, sem hefur nýlega orðið aðgengilegur almenningi,“ segir í sóknaráætluninni.

Verkin verði látin tala
Mikið verk er fyrir höndum til að rafbílaeigendur geti nýtt umhverfisvæna bíla sína til langferða um landið. Brýn þörf er á því að stjórnvöld bretti upp ermar og hefjist handa við að byggja upp nauðsynlega innviði fyrir rafbíla. Með framlagi stjórnvalda og tækniframförum sem felast meðal annars í síaukinni drægni rafbíla verður þess vonandi ekki langt að bíða að hægt verði að nota rafbíla til lengri ferða allt landið um kring. Nú þarf að láta verkin tala.

Til baka