Til baka

Sjálfbærni í samgöngum

headerBlog.Name

Sjálfbærni í samgöngum er eitt verðugasta verkefnið sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir enda er talið að allt að fjórðungur alls kolefnisútblásturs í heiminum sé til kominn vegna samgangna. Hlutfallið fer ört vaxandi en fyrir liggur að án úrbóta hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda mun reynast erfitt að vinda ofan af hlýnun jarðar. Áframhaldandi hlýnun er líklega stærsta ógnin sem lífríki jarðar stendur frammi fyrir.

Öflugar samgöngur eru á sama tíma einn helsti drifkraftur hagvaxtar og lykilþáttur allrar atvinnustarfsemi og frístundaiðkunar í þróuðum samfélögum. Gott samgöngukerfi hefur mikil áhrif á lífsgæði fólks og leikur stórt hlutverk við val á búsetu, atvinnu, ferðalögum og frítíma, svo nokkrir þættir séu nefndir.


Sérstaða Íslands

Ísland býr við þá sérstöðu að endurnýjanlegir orkugjafar knýja nánast samfélagið í heild sinni, að undanskildum samgöngum. Ef Íslendingum tekst á næstu áratugum að láta af notkun olíu sem orkugjafa fyrir samgöngur á landi, og byrja að nota innlenda orkugjafa, mun það ekki eingöngu hafa jákvæð efnahags- og umhverfisleg áhrif heldur mun það einnig skapa Íslandi sérstöðu á heimsvísu. Ísland gæti þannig orðið fyrirmynd annarra ríkja þegar kemur að orkuskiptum og haft af þeirri þekkingu umtalsverðar tekjur.

Umhverfisáhrif þessara breytinga yrðu umtalsverð. Árlega losar íslenski bensínflotinn fjögur hundruð og fimmtíu þúsund tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Það er losun sem jafnast á við árlega losun eins stórs álvers. Eftir því sem úr losuninni dregur minnkar svifryk en á undanförnum árum hefur þeim dögum þar sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk farið fjölgandi.

Fjárhagslegar skuldbindingar 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að rúmlega ein milljón manna í heiminum flytji í borgir í hverri viku til ársins 2020. Slík fjölgun í þéttbýli skapar mikið álag á innviði borganna og þá sérstaklega vegasamgöngur. Aukinn útblástur og aukin umferð kallar á meiriháttar tækniframfarir eða breytingar á núverandi samgönguháttum. Samnýting samgöngutækja, vistvænir orkugjafar og sjálfkeyrandi bifreiðar gætu verið lausn á stórum hluta þessa vanda en innleiðing nýrrar tækni eins og sjálfkeyrandi bifreiða getur tekið langan tíma. 

Áframhaldandi ívilnanir

Fyrir fáum árum urðu rafbílar að raunverulegum valkosti fyrir almenning. Fjöldi rafbíla á Íslandi hefur í kjölfarið margfaldast og bifreiðar á borð við Nissan Leaf, Mitsubishi I-MiEV og Tesla eru orðnar algeng sjón á götum úti. Í þeirri þróun hefur niðurfelling virðisaukaskatts og vöru- og bifreiðagjalda miklu máli skipt en óvíst er hversu lengi opinberar ívilnanir verða til staðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði þó, á ráðstefnu um rafbílavæðingu sem haldin var fyrir ári, að fullur vilji sé fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að festa ívilnanir í sessi til lengri tíma, til að stuðla að áframhaldandi fjölgun rafbíla.

Rafbílum hefur fjölgað um 40% það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. Þeir eru nú ríflega 650, auk þess sem liðlega 1.500 blendingsbílar; bílar sem nýta rafmagn að hluta til sem orkugjafa, eru í umferð. Eins og fram hefur komið er þörf á öflugri uppbyggingu innviða fyrir rafbílaflotann, en slíkt er forsenda hjá stórum hópi neytenda fyrir kaupum á rafbíl. Koma þarf upp þéttu neti hleðslustöðva, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, svo rafbílar geti að öllu leyti leyst jarðefnaknúin ökutæki af hólmi.

Hafðu tekjur af þinni hleðslustöð

Sprotafyrirtækið e1 hefur þegar stigið stórt skref í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er. Fyrirtækið, hefur þróað hugbúnað – smáforrit – sem gefur rafbílaeigendum tækifæri til að nálgast upplýsingar um allar aðgengilegar hleðslustöðvar sem skráðar eru í kerfið. Um er að ræða markaðstorg nettengdra hleðslustöðva þar sem notendur geta valið hentugustu stöðina fyrir sig, háð verði og/eða staðsetningu.

Eigendur hleðslustöðva geta boðið aðgang að stöðvum sínum í gegnum kerfið og þannig haft tekjur af þeim. Markaðstorgið er byggt á sömu hugmyndafræði (e. sharing economy) og fyrirtæki á borð við Airbnb og Über, sem njóta mikilla vinsælda víða um heim.

Kerfið eykur samkeppni

Sérhver eigandi hleðslustöðvar getur ákvarðað á hvaða verði hann selur orkuna og á hvaða tímum sólarhringsins stöðin stendur öðrum til boða. Þess á milli getur hann nýtt hleðslustöðina fyrir eigin bifreið, sé hann eigandi rafbíls sjálfur. Hann getur með smáforritinu fylgst með notkun stöðvarinnar, á sama hátt og sá sem kaupir orkuna getur fylgst með framvindu hleðslunnar.

Í gegnum markaðstorgið munu eigendur rafbíla hafa aukið aðgengi að hleðslumöguleikum og geta, með því að skrá sína stöð í smáforritið, hraðað uppbyggingu nauðsynlegra innviða fyrir rafbíla. Kerfið tryggir gagnsæi í verðlagningu sem eykur samkeppni á milli eigenda hleðslustöðva með tilheyrandi ábata fyrir neytendur.

Til baka