Til baka

Rafbíllinn ódýrari vegna hruns á rafhlöðuverði

headerBlog.Name

Aðeins eru sex ár þar til ódýrara verður að kaupa og reka rafbíla en bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Það sem knýr þessa breytingu er hríðlækkandi rafhlöðuverð. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Bloomberg New Energy Finance (BNEF) en Guardian greinir frá niðurstöðunum. Því er spáð að viðsnúningurinn verði árið 2022.

Rafbílar eru enn sem komið er dýrari í innkaupum en hefðbundnir bílar. Sam Morsy, greinandi hjá BNEF, segir það megin skýringuna á því að hlutfall rafbíla á meðal nýrra, seldra bíla muni ekki verða hærra en 5 prósent næstu misseri – nema í þeim löndum þar sem stjórnvöld beiti ívilnunum. Hins vegar sé þess ekki langt að bíða að algjör viðsnúningur verði í þeim efnum.

Colin McKerracher, yfirmaður greininga hjá BNEF, bendir á að lithium-rafhlöður hafi lækkað í verði um 65% síðan 2010 og hafi kostað 350 dollara á kílóvattstund í fyrra. „Við spáum því að rafhlöður í rafbíla kosti vel undir 120 dollurum á kílóvattstund fyrir árið 2030 og að verðið muni lækka enn eftir það eftir því sem ný efni verða tekin í notkun.“

Byggir á spá um olíuverð
Niðurstöður skýrslunnar byggja meðal annars á spá bandarískra yfirvalda um þróun heimsmarkaðsverðs á olíu en því er spáð að olíutunnan muni kosta á bilinu 50-70 dollara á næsta áratug. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að hefðbundnir bílar muni bæta nýtingu eldsneytis um 3,5% á ári. Fram kemur að fari svo að olíuverð verði nær 20 dollurum á tunnu gæti það dregist um þrjú til níu ár að rafbílar verði ódýrari valkostur en hefðbundnir bílar.

Í skýrslunni er bent á mikilvægi þess að rafbílavæða flotann í þeirri viðleitni að draga úr loftmengun. Loftmengun valdi mörgum dauðsföllum árlega um heim allan. Bent er á að þrátt fyrir ívilnanir stjórnvalda í ýmsum löndum sé aðeins einn af hverjum hundrað nýjum bílum sem seldir eru dag, rafbíll. Hlutfallið verði komið upp í 35% árið 2040 en á þeim tíma verði fjórða hver bifreið í heiminum eingöngu knúinn rafmagni. Þetta muni hafa mjög jákvæð áhrif á kolefnislosun í heiminum.

í skýrslunni er því jafnframt spáð að árið 2030 muni hafa dregið mjög úr vinsældum tvinngengisbíla því hreinir rafbílar verði mun hagstæðari kostur fyrir neytendur auk þess sem drægni þeirra verði mun meiri.

Metnaður hjá Bretum
Bretar hafa stefnt að því að hlutfall rafbíla á meðal nýrra seldra bíla í landinu verði 60% árið 2030 en þar niðurgreiða stjórnvöld nýjan rafbíl enn um 5.000 pund, eða 900 þúsund kónur. MCKerracher segir að það sé djörf spá en að sala rafbíla muni aukast hraðast þar sem snemma verði fjárfest í innviðum - svo sem hraðhleðslustöðvum - og þar sem umhverfismál verða sett á oddinn. „Ef menn taka samþykktir loftlagsráðstefnunnar í París alvarlega, þá hljóta þeir að afkolefnisvæða samgöngur.“

Til baka