Til baka

Hollendingar banna nýja bensín- og dísilbíla frá 2025

headerBlog.Name

Neðri deild hollenska þingsins hefur samþykkt frumvarp verkamannaflokksins PvdA sem kveður á um bann á sölu nýrra bíla sem knúðir eru jarðefnaeldsneyti frá og með árinu 2025. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og rafbílavæða bílaflotann. Frumvarpið á að vísu eftir að fara í gegn um öldungadeild þingsins en PvdA myndar samsteypustjórn ásamt frjálslyndum, VVD.

Ljóst er að Hollendingar ætla sér með þessu að verða í fararbroddi í rafbílavæðingunni – og markmið þeirra um rafbílavæðingu gæti náðst miklu fyrr en áður var talið raunhæft. Ef frumvarpið verður að lögum verður aðeins heimilt að selja bíla sem hafa engan útblástur. Frá þessu hafa fjölmðlar víða um heim greint á undanförnum dögum.

Sala rafbíla myndi stóraukast
Þess má geta að á fyrri stigum málsins vildi flokkurinn ganga svo langt að banna bensín- og dísilbíla árið 2025, en ekki aðeins banna sölu nýrra slíkra bíla.

Ljóst má vera að, verði frumvarpið að lögum, sala rafbíla í Hollandi muni aukast stórkostlega á allra næstu árum. Eins og sakir standa er tíundi hver bifreið sem keypt er í Hollandi knúin rafmagni.

Ráðherra samstarfsflokksins (VVA), Henk Kamp, hefur látið hafa eftir sér að fyrirætlanir PvdA séu óraunhæfar og að flokkur hans gæti neyðst til að endurskoða aðild sína að samkomulagi sem kveður á um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í landinu, samnings sem gildir til ársins 2023 og felur í sér að hlutfallið verði þá orðið 16%.

Raunhæft markmið?
Leiðtogi PdvA, Diederik Samsom, hefur á móti sagt að þetta hafi ekkert með það samkomulag að gera. Framfarir á sviði rafbíla séu slíkar að markmiðið sé fullkomlega raunhæft. „Við erum metnaðarfull, kannski metnaðarfyllri en hinir flokkarnir,“ hefur hann látið hafa eftir sér.

Á loftslagsráðstefnunni í París var Holland eitt fimm landa og átta ríkja Bandaríkjanna, til að samþykkja markmið um að allir nýir bílar verði knúnir raforku fyrir árið 2050. Ljóst er, gangi áætlanir PvdA fram að ganga, að sú framtíðarsýn gæti orðið að veruleika 25 árum fyrr en áður var fyrirhugað.

Til baka