Til baka

Hleðslustöð rís á Þingvöllum

headerBlog.Name

Á Þingvöllum er nú verið að koma upp hleðslustöð fyrir rafbíla. Frá þessu greindi Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra í svari við óundirbúinni fyrirspurn Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, á Alþingi í gær. Í svarinu kom fram að þjóðgarðurinn stæði straum af kostnaðinum og að ráðherra vonaðist til þess að aðrir aðilar fylgdu í kjölfarið og settu upp rafhleðslustöðvar. „Það örvar líka fólk til að kaupa sér rafbíla þegar það veit að það getur ferðast um allt land og fengið hleðslu hvar sem eru, bendi Sigrún réttilega á.

Í fyrirspurn sinni benti Brynhildur á að lítið hafi verið gefið út um stefnu stjórnvalda þegar kæmi að fjölgun vistvænna bifreiða. Rammasamningur hafi verið kynntur 2014 en lítið hafi verið talað um hvað stjórnvöld hefðu hugsað sér að gera. Brynhildur sagði að ívilnanir væru vissulega í gangi en að stjórnvöld þyrftu að ganga á undan með góðu fordæmi. „Í dag er það eiginlega þannig að stofnunum er í sjálfvald sett hvernig bifreiðar þær kaupa.“ Hún benti á, eins og e1 greindi frá á dögunum, að Hollendingar væru að ræða um að banna innflutning á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti frá árinu 2025. „Við erum á Íslandi sem við getum rafbílavætt á örfáum árum.“

Gagnrýndi innkaupastefnu stjórnvalda
Brynhildur gagnrýndi í ræðu sinni innkaupastefnu stjórnvalda þegar kemur að nýjum bílum. „Að horfa upp á að ráðherrar kaupi sér nýja bensínbíla finnst mér alveg út í hött og ég kalla eftir nýrri stefnu.“ Hún spurði hvernig ráðherra ætlaði að rafbílavæða landið.

Sigrún svaraði því til að Íslendingar ættu að geta rafbílavætt flotann á auðveldari hátt en margir aðrir, vegna aðgengis að vistvænni orku. „Það er verið að vinna að þessu,“ sagði Sigrún og benti á að nýverið hafi rafbílavæðingin verið rædd innan veggja ráðuneytisins. „Ég held að ég hafi sagt áður úr þessum stól varðandi rafbílavæðingu að það hafi komið okkur svolítið á óvart varðandi hleðslustöðvar að það væri hægt að koma þeim fyrir í fjölbýlishúsum. Við skoðuðum það meðal annars við endurskoðun á byggingarreglugerð svo ég upplýsi þingmenn um það. Menn voru með nokkrar áhyggjur af brunavarnamálum ef það væri gert þannig að það að við þurftum að skoða það olli töfum og erum að skoða það betur.“

Ríkið örvi fólk
Hún sagði að sóknaráætlun fæli í sér það markmið að koma upp hraðhleðslustöðvum vítt og breitt um landið, þannig að fólk gæti ekki aðeins notað rafbíla á suðvesturhorninu heldur um allt land. „Mér finnst rétt að stjórnvöld séu fyrst og fremst í að örva fólk til dáða. Maður á að leggja enn þá meiri áherslu á það fremur en að ríkið sé að framkvæma allt.“

Til gamans má benda á að Sigrún talaði um að unnið væri hörðum höndum að rafvæðingu í sjávarútvegi. Þar væru ýmis góð teikn á lofti. „Það er verið að skoða hvernig hægt sé að rafvæða hann líka, ekki síst hafnirnar. Það kostar reyndar heilmikið en það er unnið mjög mikið að sjálfbærri nýtingu og vernd hafsins.“

Til baka