Til baka

Einstakt tækifæri til orkuskipta í Bandaríkjunum

headerBlog.Name

Ný rannsóknarskýrsla frá Framfaramiðstöð Ameríku (CAP), leggur til að hið fyrsta verði lagður grunnur að uppbyggingu innviða fyrir rafbíla í Bandaríkjunum. Það sé nauðsynlegt, ætli Bandaríkjamenn sér að standa við gefin loforð um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir hafa heitið því að árið 2025 verði útblástur 26-28% minni en hann var árið 2005.

CAP, sem sérhæfir sig í ráðgjöf og greiningu á opinberri stjórnsýslu og stefnu, leggur í skýrslunni til þrjár leiðir til að flýta innleiðingu rafbíla í bandarískt samfélag. Tillögurnar miða ekki síst að því að gera rafbílinn hyggilegan kost fyrir fólk sem býr á fátækari svæðum.

Bifreiðar losa fjórðung gróðurhúsalofttegunda
Bandaríkjamenn hafa, eins og aðrir þjóðir á loftlagsráðstefnunni í París seint á síðata ári, lofað að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í Bandaríkjunum má rekja fjórðung allrar losunar gróðurhúsalofttegunda til vélknúinna ökutækja. Fram kemur í skýrslunni að innleiðing rafbíla og uppbygging henni tengd, sé lykilforsenda þess að markmiðin náist. Ríki heimsins, þar á meðal Bandaríkin, þurfi hins vegar að taka mun stærri skref í orkuskiptum en þau sem Obama-stjórnin hefur boðað til að afstýra verstu fyrirsjáanlegu afleiðingum hlýnunar jarðar. CAP segir mikilvægt að rafmagn verði í auknum mæli framleitt með endurnýjanlegri orku.

Fram kemur í skýrslunni að í fimm ár af síðustu átta, hafi dregið úr raforkunotkun í Bandaríkjunum. Bandarísk orka sé, sem hlutfall af landsframleiðslu, ódýrari en víðast annars staðar. Sífellt fleiri heimili framleiði sína eigin sólarorku og færri treysti á hefðbundin dreifikerfi raforku. Þessi þróun muni halda áfram á komandi áratugum.

Einstakt tækifæri
Staðan sé því þannig að Bandaríkin þurfi á því að halda, til að standa við skuldbindingar sínar, að nota rafbíla í stórauknum mæli, samhliða því að raforkuframleiðendur þurfi á aukinni eftirspurn að halda. Þessar aðstæður skapi einstakt tækifæri til uppbyggingar rafhleðslustöðva og annarra innviða fyrir rafbíla. Bent er á að þess vegna hafi Edison Electric Institute, fulltrúi allra einkarekinna orkufyrirtækja í Bandaríkjunum, og 70 alþjóðlegra raforkufyrirtækja að auki, undirritað samkomulag við yfirvöld (DOE) um að vinna að því að flýta innleiðingu rafbíla og rafhleðslustöðva. Nokkur raforkufyrirtæki, til dæmis þrjú stærstu fyrirtækin í Kaliforníu, hafi þegar hafist handa við að byggja upp net rafhleðslustöðva.

Óttast háa verðlagningu
Ýmis neytendasamtök vestanhafs gjalda varhug við þessa hröðu þróun og óttast að verði eftirspurnin ekki næg til að greiða niður fjárfestingu fyrirtækjanna muni það fljótt bitna á verði til rafbílaeigenda. Fram kemur í skýrslunni að nauðsynlegt sé að einkageirinn vinni að verkefninu með samtökum almennings og hinu opinbera. Nauðsynlegt sé að finna hagkvæma forskrift.

Þrjár megintillögur
CAP leggur þrennt til við raforkufyrirtækin:

  • Með frumkvöðlastarfsemi verði hafist handa við að fjárfesta í uppbyggingu rafhleðslustöðva fyrir rafbíla, með það að markmiði að nýta þá innviði – þau dreifikerfi – sem raforkufyrirtæki hafa byggt upp á undanförnum áratugum.
  • Hanna þurfi greiðslufyrirkomulag sem umbuni þeim rafbílaeigendum sem hlaða bíla sína utan annatíma í raforkunotkun. Finna þurfi út hvaða leiðir séu færar til að bjóða rafbílaeigendum orku sem framleidd er á umhverfisvænan og endurnýjanlegan hátt.
  • Leggja þurfi áherslu á þétt hleðslunet á fátækari-svæðum og í fjölbýlishúsahverfum. Hvetja þurfi löggjafann á hverjum stað til að setja reglur sem ívilni fólki á fátækari svæðum fyrir að velja rafíla.

Skýrslan segir að framkvæmd þessara þátta muni gera rafbíla að fýsilegum kosti fyrir mjög stóran hóp almennra borgara. Það muni draga mjög úr losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum og leiða til jafnrar og stöðugrar raforkunotkunar.

Til baka