Til baka

Ætla að bæta fyrir svindlið með tímamótarafbíl

headerBlog.Name

Vörumerkjastjóri Volkswagen, Herbert Diess, hefur hrint af stað vinnu sem gæti valdið straumhvörfum í rafbílavæðingunni. Bílasíðan Autocar greinir frá því að hann hafi handvalið nokkra af fremstu verkfræðinga Volkswagen til þess að hefja undirbúning að tímamótarafbíl úr smiðju bílarisans.

Áætlunin, sem mikil leynd hvílir enn yfir, lýtur að því að árið 2019 muni Volkswagen kynna byltingarkenndan rafbíl sem ætlað er að höfða til breiðs hóps notenda – ekki ósvipað Golf.

Næstum tvöföld drægni
Bíllinn á að vera í færi meðalmannsins að kaupa og drægni rafhlöðunnar á að vera að lágmarki 500 kílómetrar, en það er sama tala og Porche hefur nefnt fyrir Mission-E bíllinn. Þess má geta að 2018-árgerðin af Golf rafbílnum á að draga upp undir 300 kílómetra.

Volkswagen hyggst verja miklu fé í þróun bílsins og Diess vill að verkfræðingar fyrirtækisins sanni að þeir séu í fremstu röð á heimsvísu. Hann ætlast til þess að Volkswagen taki afgerandi forystu í rafbílavæðingunni; með nýjustu tækni og framúrstefnulegri hönnun sem mun auka innra rými til muna. Það sem knýr þetta verkefni áfram, að sögn Autocar, er sú viðleitni Diess og annarra yfirmanna Volkswagen, að bæta fyrir dísilvélasvindlið, sem fyrirtækið varð uppvíst að í fyrra og olli miklum álitshnekki fyrir fyrirtækið og bílaiðnaðinn.

Verkfræðingar Volkswagen í verksmiðju fyrirtækisins í Braunschweig eru þegar farnir að vinna að verkefninu en mikil áhersla er lögð á að tímaáætlun standist.


Í færi meðalmanns að kaupa
Verkfræðingarnir eru þegar farnir að setja eiginleika bílsins á blað. Þegar hefur spurst út að hann eigi að vera 4,4 metrar að lengd en hefðbundinn Golf er 4,25 metrar. Gerbreyta á öllum innréttingum og hönnun bílsins svo útlit hans verður spánýtt, jafnt að innan sem utan, auk þess sem bíllinn á að vera sérstaklega kvikur. „Þessi bíll verður mikil yfirlýsing af hálfu Volkswagen,“ hefur Autocar eftir heimildamanni, verkfræðingi sem þekkir til þeirrar vinnu sem hafin er innan fyrirtækisins. „Það stendur til að nota allra nýjustu tækni en að bíllinn verði jafnframt í færi meðalmannsins að kaupa.“ 

20 rafknúnar VW-týpur
Bíllinn verður að sögn sá fyrsti sem verður smíðaður á nýja MEB-undirvagninum, þeim sama og var undir hugmyndabílnum Budd-e, sem Volkswagen kynnti í Las Vegas í janúar, og er sérstaklega hannaður fyrir rafbíla.

 

Volkswagen hefur ekki staðfest fréttir Autocar, enda hvílir leynd yfir verkefninu. Hins vegar hefur framkvæmdastjórinn Matthias Müller staðfest að árið 2020 verði 20 tvinn- eða rafbílar frá Volkswagen á markaði.

Áður en til dísilvélasvindlsins kom, þar sem svindlað var á útblástursprófum, hafði Volkswagen stigið varlega til jarðar í rafbílabyltingunni. Framkvæmdastórinn hefur látið hafa eftir sér að hneyklismálið hafi leitt til þess að fyrirtækið hafi verið endurskipulagt frá grunni. Innreið Volkswagen í rafbílavæðinguna þykir mönnum til marks um þá vinnu.

Til baka